þriðjudagur, 23. júní 2009

Misheppnaður Vaktstjóri 2

Starf vaktstjóra hefur mikla ábyrgð í för. Vaktstjóri ber ábyrgð á hegðan undirmanna sinna og ekki síst, sjálfum sér. Vaktstjóri á alltaf að sýna gestum og starfsfólki kurteisi á heimsmælikvarða. Vaktstjóri á að vera undirmönnum sínum fyrirmynd í starfi sem máli. Vaktstjóri á ávalt að hafa aðgát í nærveru sálar.
Það var um daginn skömmu fyrir vaktaskiptin að maður einn bar sig að vaktstjóra næturvaktarinnar. Maður þessi sagði svo að hann þyrfti á aðhlynningu að halda vegna sýkingar í nögl. Fékk vaktstjórinn því nýkominn dagvaktstjóra til að hlúa að nögl mannsins á heilsugæslustöð fyrirtækisins sem hann og jú gjörði.
Þegar dró nær vaktaskiptum og talsvert af fólki var farið að safnast við bækistöðvar öryggisvarðanna, var næturvaktstjórinn á máli við tvo undirmenn sína þegar undirmaður dagvaktstjórans greip fram í fyrir máli þeirra og spurði fregna af yfirmanni sínum. Svaraði næturvaktstjórinn um hæl og glettni, að hann væri að gera að stórslasaðri tánögl.
Næturvaktstjórinn las samstundis úr svip félaga sinna að hann hefði sagt eitthvað sem hefði mátt bíða betri tíma því eigandi naglarinnar stóð þar ekki langt frá, sneri baki í fjórmenningana og draup vatn úr glasi.
Hún var óþægileg þögnin í félögum næturvaktstjórans sem sá nú sinn eiginn yfirmann í anda, másandi og blásandi, eldrauður í framan.
Á endanum sá maðurinn ekki annan kost en að koma sér af bækistöðvum öryggisvarðarins kaldhæðna og skundaði á brott á farkosti sínum.

Þá gátu undirmenn vaktstjóranna loks opinberað ánægju sína yfir orðum næturvaktstjórans. Ánægja þeirra var í ýmsum myndum og formum. Voru nú til sýnis bros og glettur, bakfellur og hnébeygjur, hendur fyrir vitum, fliss og hlátrasköll.
Næturvaktstjórinn fór heim og þó hann hefði glatt félaga sína, átti hann ekki gott með svefn, enda var hann fífl dagsins.

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Misheppnaður Vaktstjóri

Það var gaman hjá vaktstjóranum um daginn enda síðasti dagurinn í vaktavikunni. Það var snemma morguns og næturvaktin senn á enda. Það hafði verið galsi í mönnum á vaktinni. Brunavörðurinn hafði reytt af sér alla þá brandara sem höfðu verið sparaðir síðustu daga, öryggisvörðurinn hafði rakað sig nauðasköllóttan og vaktstjórinn hafði rakað af sér alskeggið og var nú kominn með þetta myndarlega yfirvaraskegg.
Úti var kolniðamyrkur og hríðin baulaði á vaktstjórann, en hann stóð inni við gluggann með kaffibolla. Febrúar var mánuðurinn, snjór og stingandi frost en hann elskaði þetta veður, þennan árstíma. Honum fannst alltaf eins og hann væri á vígvelli þegar hann var úti, kappklæddur. Inni var hann eins og kóngur í ríki sínu, vel varinn af stálgrindum og glerveggjum. Það var ekkert sem náði honum, ekkert sem ógnaði vægi hans. Ekkert. Hann var sjálfstraustið upp málað. Starfsmenn verksmiðjunnar báru óttablandna virðingu fyrir honum. Hann var andlit öryggisgæslunnar.
Vaktstjórinn sötraði kaffið og fylgdist með bílljósum í fjarska nálgast verksmiðjuna. Hann hugsaði með sér að þetta fólk ætti langan dag framundan en hann yrði brátt kominn í sitt vikulanga frí. Hann aumkaði þetta fólk. Honum fannst eins og það væri alltaf vinnandi, alltaf þreytt. Hann prísaði sig sælan.
Það voru vaktaskipti. Klukkan steig hægt í áttinni að átta. Nú voru starfsmenn verksmiðjunnar óðum að skríða inn. Sumir komu með rútum og aðrir á einkabílum. Meðal þeirra voru nýir starfsmenn sem áttu að sitja nám og þjálfun fyrir komandi vinnu.
Það var vaktstjórans að vísa þeim til sætis í fræðslustofu verksmiðjunnar. Hann fylgdi hverjum og einum inn í stofuna og kynnti þeim fyrirkomulag dagsins í nokkrum orðum. Þetta var venjulegt fólk, frá tvítugu að sextugu.
Vaktstjórinn var orðinn ögn ærslafullur og klukkan einungis tvær mínútur í átta þegar hann leit á klukkuna. Mótvaktin var tilbúin til að taka við vaktinni og símadaman þeirra var búin að taka sér stöðu við símann og byrjuð að tala við öryggisvörðinn. Það gustaði af henni, hún talaði um gærdaginn, „Þetta skrifstofulið, ég get svarið það“ hvíslaði hún og spennti fingurna út í loftið. Hún var rjóð á köldum kinnunum og svart blautt hárið hennar festist dálítið á þeim. Hún hélt áfram að tala en það heyrðist varla því hún hvíslaði svo lágt. Vaktstjórinn slóst í hópinn til þess að heyra söguna en heyrði bara pískur og sá einungis rauða varalitinn ávörum hennar. Hún hafði farið í sundlaugina áður en hún tók rútuna í vinnuna. Vaktstjórinn vissi það vegna þess að hún var enn með blautt hár.
Að vaktstjóranum vék sér maður á miðjum aldri, órakaður. Grátt hár hans stóð stíft út í loftið eins og hann væri með gel í því. Vaktstjóranum fannst eins og hann hefði legið drykkju, dögum saman og tók orðið af honum áður enn maðurinn byrjaði að muldra. Manninum fylgdi hann svo inn í stofuna og sagði honum hvað hann átti að gera en varð starsýnt á konu sem sat í miðri stofunni. Þau mynduðu strax augnsamaband sem slitnaði ekki. Öryggisvörðurinn náði að klára það með herkjum sem hann var að segja manninum. Honum þótti konan undurfögur og hún horfði svo þétt í augu hans. Hann var búinn með orðin og setti á sig fararsnið, tók skrefið en sparkaði þá frekar kröftuglega í hurðarkarminn um leið og andlit hans small á karminum svo glumdi í. Hann trúði ekki að þetta væri að gerast. Sjarmi hans beið hnekki og sjálfstraustið hrundi sem sandur. Hann stokkroðnaði samstundis en hafði samt hugrekki til að líta aftur á dömuna sem enn horfði á hann, stórum augum og bar hönd fyrir galopinn munn.
Vaktstjórinn bar hendur að andliti sínu og gekk að borði símadömunnar sem enn hafði frásögn gærdagsins að fyrirrúmi. Hún gerði hlé á frásögninni til að athuga hvað væri að vaktstjóranum sem sagði sögu sína.
Sagan breiddist hratt út og gladdi marga. Deginum var bjargað, allir voru brosandi og ánægðir þennan dag. Fífl dagsins var fætt.

fimmtudagur, 1. janúar 2009

Áramótaviðtalið

Nú er komið nýtt ár og Hilmir Arnarson orðinn fertugur. Það var fyrr á þessu ári að hann leiddi hugan að því að þessi ágæti áfangi rynni brátt upp. Hann hefur litið til baka, alla leið að barnsárum en í dag er hann fyrirmyndar piparsveinn og virðist líka það vel.
Kötturinn Róbert tók viðtal við Hilmi á vetrardögunum þar sem þeir drekka saman kaffi á heimili hilmis, Hrauninu á Fáskrúðsfirði. Húsið Hraun var byggt 1904 og stendur í hjarta bæjarins. Hilmir segir dvölina á Hrauninu hafa verið ánægjulega þann tíma sem hann hafi búið þar, útsýnið gefandi hlýlegan anda í húsinu.
Í viðtalinu segir Hilmir frá æsku sinni og piparsveinaárum sínum.

R: Hilmir, hvar og hvenær ertu fæddur?
H: Ég fæddist á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum þann fyrsta Janúar 1969 klukkan tuttugu mínútur yfir tíu um morguninn. Í dag hýsir Sjúkrahúsið stjórnarráð kaupstaðarins.
R: Þótti lækninum ekkert erfitt að rífa sig á fætur þennan morgun?
H: Jú, þetta er nú ekki beint besti dagur til að sinna vinnunni enda á fólk að vera í fríi. Mamma hefur nefnt að læknirinn hafi verið frekar hranalegur og segir hún vistina hafa verið fremur kuldalega.
R: En pabbi þinn? Hvernig var hann? Stóð hann sig vel eða var hann kannski ekki kominn heim af áramóta gleðskapnum?
H: Tja... ég held hann hafi verið þarna. Ég bara man það ekki, ha ha...
R: Hvað voru foreldrar þínir gamlir þennan dag?
H: Mamma var orðin nítján ára en pabbi var eldri, tuttugu og eins og svo varð hann tuttugu og tveggja nákvæmleg tveimur vikum seinna eða fjórtánda janúar en hann er fæddur 1947.
R: ég spurði nú ekki að því.
H: Já, ég veit, sorrí.
R: Hvernig var þér annars tekið af fjölskylduvinum? Voru allir sáttir við ungan aldur foreldra þinna? Það þykir ekki tiltökumál að eignast barn ungur að árum í dag en annað var upp á teningnum fyrir fjörutíu árum og fyrir rúmlega hundrað árum hefðu þau verið dæmd fyrir hór en ég ætla ekki að fara út í þá sála. Ég hugsa að þau sem báru ábyrgð fyrir ungum foreldrum þínum hafi eitthvað sagt sín á milli, svo ég spyr, var vel tekið á móti þér?
H: Sko... hvernig á ég að svara þessu. Sko, amma, mamma hennar ömmu, hún Alda frá Vatnsdal, hún var rétt orðin fertug þá eða rúmlega og ég er ekki viss um að hún hafi verið tilbúin þá. Hún átti nefnilega tvo fjögurra ára peyja, einn fimm ára og eina sex ára. Þú sérð, þetta eru fjórir krakkar sem enn eru börn og ég efast um að henni hafi verið sama um það að hún skildi ekki eiga um vala hvort hún yrði amma þennan dag eða eftir nokkur ár.
Samt veit ég að hún hefur nú alveg fallið fyrir mér þegar hún sá sæta krýlið, nýkomið í heiminn.
R: Einmitt. Hvað með fólkið úr föðurættinni, var ekki einhver kergja þar á bæ?
H: Nei, nei. Ég var ekki fyrsta barnabarnið þeirra. Þrjú á undan, þau Eygló, Óskar og Einar sem eru...
R: Já, já, já, já,já ókey.
H: Hvað, má ég ekki segja þér frá þeim?
R:Jú,jú,jú, fyrirgefðu. Hvernig tóku þau þér?
H: Ég hitti Einar, son Bergs, bróður pabba, ekki fyrr en eftir nokkur ár en Óskar, sem var fyrir mig, eftirlæti ömmu sinnar og afa varð afbrýðisamur en Eygló stóð nokkurn veginn á sama.
R: Þannig að þau voru ekki að taka þér vel?
H: Jújú, svona, þetta var allt í lagi. Við bjuggum saman um tíma þegar við fluttum til Reykjavíkur á Bergstaðastræti eftir gos, 1973. Þá var ég orðinn fjögurra ára gamall og Óskar sennilega tíu vetra.
Þar lék allt í lyndi. Við frændurnir gerðum margt skemmtilegt saman. Við lékum sirkúsatriði saman, reyndar fyrir luktum dyrum. Ég stillti mér upp við gamla kommóðu á meðan hann mundaði vasahnífinn sinn og svo kastaði hann honum þannig að hnífurinn stakkst í kommóðuna rétt við hlið mér. Ég hlaut aldrei skrámu, ég bar fullkomið trausts til hans.
R: Sannur vinur hann frændi þinn. Hvernig er samband ykkar í dag? Eruð þið ennþá í sirkúsbransanum?
H: Nei, nei. Hilmir hlær vandræðalega og augnbrýnnar lyftast. Við hittumst ekki eins oft en það fer gaman meðal okkar þegar við hittumst.
R: Hvenær hittust þið síðast?
H: Það var í Vestmannaeyjum.
R: Hvenær?
H: Það er nú dálítið síðan. Sennilega tvö ár. Hittumst á Lundanum sem er einn af mörgum kráum í eyjum. Sennilega tvö ár síðan eða tæp þrjú.
R: Og þú berð enn fullkomins trausts til hans?
H: Enn hlær Hilmir á sama hátt. – Hann er frændi minn.
R: Við skulum nú snúa okkur að öðru nema þú viljir halda áfram að tala um hann Óskar frænda þinn?
H: Nei, nei. Hann er búinn að fá sinn skerf.
R: Svo kláraðist gosið. Fórstu heim með foreldrunum?
H: Nei...
R: ...nú, fóru þau án þín?
H: Nei, við fluttum til Danmerkur í lítinn bæ sem heitir Munkebo. Pabbi vann í skipasmíðastöð. Mömmu og pabba leið ákaflega vel þar og mér líka en þar sem við vorum útlendingar í þessum bæ vorum við litin hornauga. Danirnir kölluðu okkur Tyrki.
R: HA! HA! Geggjað! Alveg magnað! Himmi Tyrki! Eða Tyrkja Himmi! Æjæj, haha! Ég á ekki til eitt aukatekið orð! Farðu úr bænum! Haha! Nei! Eitt í viðbót handa þér, Hirki! Ha ha!
H: þetta var ekkert grín, ég átti enga vini. Einu vinirnir mínir voru maríubjöllur, þessar litlu kringlóttu og krúttlegu skordýr. Ef ég sá kramda maríubjöllu á gangstéttinni þá hágrét ég. Það var nefnilega einhver bjöllu faraldur það sumarið.
R: Svo þú varst bara þó nokkuð vinamargur á mörkinni, ha ha.
H: Já, þannig séð.
R: Hvað hétu vinirnir?
H: Ha ha ha.
R: Svo snéruð þið aftur til Vestmannaeyja. Hvað voruð þið kölluð þá? Danir?! Haha!
H: Nei, nei. Það var gott að koma heim en líka skrýtið. Allt í eyðileggingu en samt var allt í uppbyggingu. Sérstakt.
Þarna var öll fjölskyldan og þarna byrjaði ég að þekkja fólkið betur, orðinn vel yfir fimm ára og fulltalandi. Ég var í nánu sambandi við ömmu mína, hana Eygló en afi minn, Ólafur hafði dáið í nóvember árið sem ég fæddist. Við kynntumst aldrei sem talandi menn en það er til mynd af okkur saman.
Pabbi keypti fljótlega hús við Strembugötu 18 og þar byrjað glaðlegt tímabil. Mamma sagði að ég hefði hlaupið um húsið hlæjandi og skrækjandi þegar við komum þangað fyrst. Það bergmálaði í þessu funkishúsi. Skemmtilegt hús og sérkennilegt í laginu. Mér þykir enn vænt um það.
R: Hilmir, hvað í ósköpunum er funkishús?
H: Funkishús er ákveðinn byggingastíll húsa sem byggð voru um 1950 ef ekki fyrr. Húsin höfðu stóra glugga, sérstaklega í suðri til þess að nýta sólarljósið og svo var yfirleitt stór garður í suðri. Formið á húsunum var líka svo skemmtilegt, það...
R: ...ókei, ókei Hilmir. Þetta segir mér ekki neitt hvað funkishús er. Ertu ekki bara nokkuð ríkur af ónothæfum upplýsingum Hilmir minn?
H: Maður veit sjálfsagt eitthvað sem einhver annar veit ekki. Skilur þú hvað ég á við?
R: Voru einhver skemmtileg skordýr í hverfinu?
H: Járnsmiðir... já, þú meinar! Þannig séð, þarna voru auðvitað krakkar. Ég var reyndar ekkert að eltast við þau til að byrja með en svo kom þetta einn daginn. Þá var ég á leiðinni til Óskars Sveins sem var reyndar vinur minn en hann bjó í næsta hverfi. Hann hafði boðið mér í heimsókn svo ég þurfti að fara yfir götuna mína og yfir einn garð svo ég kæmist til hans.
Ég man, ég stóð við útidyragluggan og fylgdist með krökkunum í götunni. Ég var nefnilega dauðhræddur við þá. Þegar þeir voru horfnir úr augsjón, þusti ég út á götu með úlpuhettuna yfir höfði, þarna var ég sennilega fimm ára gamall. Ég var ekki kominn yfir götuna þegar einhver rífur í mig, heldur með báðum höndum í úlpukragann og togar mig að sér og segir „Ætlaðir þú að labba yfir garðinn minn?!“ fyrir framan mig stóð ljóshærð stelpa á sama aldri og ég og horfði illkvittinslega á mig. Hjartað gerði sitt besta til að slá sem varlegast svo óargardýrið gengi hreinlega ekki frá mér.
Ég afsakaði mig með einhverjum orðum og útskýrði fyrirætlun mína og hún sleppti takinu á úlpunni.
Ég fór ekki til Óskars Sveins þennan dag því við fórum inn til hennar þar sem hún kynnti mig fyrir mömmu sinni og svo lékum við okkur saman í hlutverkaleikjum í dúkkuhúsinu. Nokkrum mánuðum seinna bað ég hana um að íhuga það að giftast mér um tvítugt.
Þessi stelpa heitir Andrea. Hún á fleiri leiki að baki með handboltalandsliðinu og þótti mikil kvenskörungur. Hörkunagli.
R: Ertu gay? Dúkkuhús! Svo læturðu stelpu lemja þig og vilt svo að hún giftist þér?!
H: Það er nú ekki alveg þannig, það gerist ýmislegt óútskýranlegt á barnæskunni. Vinátta okkar var virkilega góð en svo kom að því að hún flutti úr nágreninu en þá eignaðist ég nýja vini, þá Stebba og Þóri. Þeir voru fínir. Svo óx maður úr grasi og vinahópurinn breyttist. Ég fór að hanga með Lúðvík og Guðna um 13 ára aldur. Ýmist vorum við inni á einhverju heimilanna, lesandi Andrés blöð, hlustandi á tónlist, leikandi í tölvum eða jafnvel að tefla. Móðir Guðna talar alltaf um okkur. Henni er það minnisstætt þegar við vorum á hennar heimili, þá var einn okkar í tölvunni, annar inni í eldhúsi að spjalla eða spila rommý eða kana og sá þriðji var kannski uppi í herbergi að spila plötur eða sofnaður í rúminu hans Guðna. Hún sagði að við værum saman jafnvel þótt við værum í sitt hvoru horninu.
R: Hefur þú aldrei, Hilmir, átt náinn vin? Meira segja þessir vinir þínir héldu sig í fjarlægð frá þér.
Við skulum snúa okkur að öðru. Hvernig var lífshlaupið fram að deginum í dag?
H: Tilvran snérist að mestu í þá daga að lifa á nægjuseminn úti í eyjum. Eyjarnar eru náttúrulega einangraðar, lítið samfélag. Maður varð að finna sér eitthvað að gera. Ég stundaði fótbolta og handbolta og með árununum náði ég fínum árangri í fótboltanum. Svo þurfti maður að vinna fyrir sér. Að mestu var ég í fiskvinnslu og svo vann ég eitthvað í Vörusölu Sambands Íslenskra Samvinnurekenda eða S.Í.S. eins og það var kallað og pabbi var kallaður Örn í SÍS.
R: Varst þú kallaður Himmi vinalausi?
H: Nei, ég var ekki kallaður neitt.
R: Það hefur hafa nokkrir lítrar runnið í hafið síðan þá og þangað til í dag. Ef við stiklum á stóru, hvaða tilvik í lífinu standa upp úr?
H: Sjómennskan var sérstök, fyrsti bíllinn, og Cooperinn sem ég átti síðast, líkamsræktin, Listaskóli Reykjavíkur, Iðnskólinn í Reykjavík, Reykjavík Fashion Week, löndin sem ég hef ferðast til undanfarin ár eftir námið heima, Danmörk og Portúgal. Námið í Ítalíu er sennilega ótrúlegasti tími lífs míns.
R: Svo enn ertu vinalaus allan þennan tíma og annað athyglisvert, þú minnist ekkert á kvenfólk. Ertu hreinn sveinn?
H: Nei nei, það hafa ýmsir skrýtnir fuglar komið við, eins og til dæmis hann Fúsi. Við kynntumst í vinnunni. Einhvernveginn langaði mig ekki til að kynnast honum og lét hann eiga sig en hann var annars huga með það. Ég man einu sinni og hann líka. Ég stóð við vinnuborð og var með eitthvað í hondunum þegar hann kemur gangandi í áttina til mín. Ég lít upp og hugsa með mér að þessum manni langi mig ekki til að kynnast en það sem hann hugsaði einmitt á sama tíma, var að hann langaði einmitt til að kynnast þessum manni. Magnað þessar tilviljanir.
Ekki má gleyma Halla sem ég kynntist hérna fyrir austan. Við vorum einmitt að vinna saman og svo leigði hann hjá mér herbergi í smá tíma, og svo keypti hann sér íbúðarhús í næstu götu. Hann er fínn sko.
R: Ég hef meiri áhuga á því hvort þú þekkir til kvenna.
H: Það hafa nokkuð margar kvensurnar borið að garði gegnum tíðina, samt engin fræg.
R: Nú, ókei. Hvað liggja þá margar í valnum?
H: Þær eru nokkrar. Þær skipta alla vega tugum.
R: Hvenær fékkstu síðast að ríða?
H: Hvaða, hvers konar spurning er þetta? Þetta er einum of persónulegt.
R: Vertu ekki svona viðkvæmur, það er ekki bara ég sem er forvitinn.
H: Já, ég veit. Vissulega þegar ég hugsa út í það, þá er liðinn einhver tími en, kommon, það kemur engum við.
R: Já, rétt hjá þér. Þú ert lagstur í vörn. Hvernig ætlar svo piparsveinninn að eyða áramótunum? Á ekki að skella sér í partý og pikka einhverja gelluna upp?
H: Satt best að segja þá ætla ég að hafa það rólegt og gera það sem mig langar að gera. Vera edrú, nánast. Ég ætla að borða góðan mat með foreldrum mínum og bræðrum mínum Sindra og Andra á meða við hlustum á útvarpsmessu biskupsins. Geir H. Haarde flytur okkur svo ávarp á RÚV og svo tek ég púlsinn á viðburðum ársins hér og útlendis, áramótaskaupið fylgir í kjölfarið. Ég keypti tvær litlar rakettur og einhvers konar gos og því verður skotið upp um miðnætti. Ég fer svo snemma að sofa, snemma á fætur og skelli mér í stutta göngu með Örra bró og föður mínum honum Erni.R: Engin afmælisveisla? Þú verður orðinn fjörgamall.
H: Tja, jú svona smá. Það verður kaffi og með fyrir þá sem sjá sér fært seinna um daginn.
R: Áramótaheit?
H: Nei, það borgar sig ekki.
R: Á ekki einu sinni að ná sér í konu?
H: Sé bara til með það.
R: Við skulum nema staðar hér enda runnir út á tíma. Hilmir, ég þakka þér fyrir kaffið og allan þennan tíma. Hann er búinn að vera dýrmætur, eins og raketta sem maður borgar morðfúlgu fyrir og svo brennur hún upp á örfáum sekúndum. Hilmir, enn og aftur, takk fyrir.

fimmtudagur, 25. desember 2008

Gleðileg Jól


Buon Natale og allt það. bara smá jólakveðja til allra frá mér en ekki Fúsa en samt jólakveðja til Fúsa frá mér og líka jólakveðja til Róberts, Sindra, Andra, mömmu og pabba, Örvars og fjölskyldu og allra og líka þeirra sem þekkja mig ekki og allt. Jájá bæbæ.

föstudagur, 12. desember 2008

Óþægileg Lífsreynsla 2

Það var fimmtudagur og nóg að gera í vinnunni. Allan daginn sat öryggisvörðurinn við síman og tölvuna og skráði upplýsingar og svaraði fólki sem hringdi, ekki beint skemmtilegur dagur hjá honum og hann búinn að upplifa margt strembið. En klukkan leið og dagurinn róaðist, brunavörðurinn kom og settist við borðið til hliðar hjá honum og byrjaði að sinna sinni vinnu. Það hýrnaði yfir honum og brátt var glensið hjá þeim komið á hátt stig.
Brunavörðurinn sat þarna símasandi en gaf sér tíma til að spyrja öryggisvörðinn hvað klukkan væri. Öryggisvörðurinn leit á klukkuna sem var 17:27 og tók á það ráð að svara á sniðugan hátt svo kreppti hann hægri höndina utan um lúftmíkrófóninn og undirbjó sig fyrir stuttan óð til brunavarðarins. Hann dró inn andan, snéri sér að henni og lét röddina víbra eins hallærislega og hann gat. Hann sá sjálfan sig sem Maryuh Carey, þessi dæmigerði bandaríski poppari með Kenny G í undirspili. Eins hallærislegur og hugsast gat og svo söng hann, ...Klukkan er sautján... brunavörðurinn horfði hissa og brosti til öryggisvarðarins en í þeim tónum gekk vel klæddur maður í svörtum fötum fram hjá þeim félögum. Þetta var forstjóri fyrirtækisins. Hann staldraði ekki við heldur gékk á sínum hraða en leit á öryggisvörðinn í gegnum gleraugun án þess að snúa höfðinu.
Öryggisvörðurinn gerði sitt besta til að láta sem ekkert væri athugavert við hegðan sína og kláraði laglínuna, ...tuttugu og sjö. Öryggisvörðurinn hélt enn á míkrófóninum og þagði.
Forstjórinn gekk í burtu, feginn að komast úr vinnunni. Brunavörðurinn og öryggisvörðurinn með míkrófóninn í hendinni horfðu á hvorn annan, svo færðust bros yfir andlit þeirra og þau hlógu en öryggivörðurinn roðnaði meira en hann hló.
Forstjórinn hugsaði með sér af hverju það þarf alltaf einhver starfsmaður að vera svona mikið fífl.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Óþægileg Lífsreynsla

Það var nú fyrir skemmstu á vaktaskiptunum í vinnunni að þjónustustjóriSecuritas á Austurlandi mætti óvenju snemma til vinnu sem er vart frásögu færandi nema hann var grár og gugginn í fasi, hárið stóð upp í loftið eins og sina á þúfu. Hann var lasinn og hnerraði af og til í rjómahvítan vasaklút. Hann var í ljósgráu úlpunni sinni sem var líka númerinu of stór svo hann virtist hálf draugalegur á að lýta.
Þjónustustjórinn stóð við útidyrnar í hæfilegri fjarlægð og horfði á öryggisverðina þar sem þeir stóðu í hópum. Það var létt á mönnum þegar rædd voru skemmtilegustu atvik liðinnar vaktar. Þjónustustjórinn herti sig upp og gekk að mönnum til að vitja frétta en hafði ekki erindi sem erfiði.
Öryggisvörður nokkur sem sá til hans fann til með honum og ákvað því að sýna honum athygli og gekk á eftir honum inn fyrir móttökuborðið þar sem þjónustustjórinn gerði sig líklegan til að betla samúð frá símadömunni en rétt í því þegar þjónustustjórinn er kominn að símadömunni, tekur hún upp símtólið og býður góðan dag.
Hann stóð því þarna með orðin á vörunum. Hann var tilbúinn að segja “Sæl og góða daginn. Ertu búin að ná þér af niðurgangspestinni?” Honum fannst hann bara nokkuð fyndinn þó hann vissi að hann hafði hugsað þetta á leiðinni í vinnuna og hlakkaði til en þess í stað stóð hann þarna með þurran munninn og ósýnilegur í þokkabót. Það var ekkert í boði fyrir hann, enginn vildi vita af honum og snéri hann sér því hægt í burtu frá henni eins og bátur að stíga frá landi. Honum gramdist þetta viðmót þegna hans og þótti fúlt.
Þegar þarna var að komið, var öryggisvörðurinn skrefinu fyrir aftan þjónustufulltrúan, tilbúinn að hnippa í hann þegar þjónustufulltrúinn hnerraði í tvígang og snýtti sér svo jafn oft. Eitthvað sá öryggisvörðurinn broslegt við þetta en það tók alveg mælinn úr þegar þjónustustjórinn tók skrefin þá leit hann laumulega í kring um sig, svo tók hann gönguprumpið á þetta.
Með Guðs hjálp tókst öryggisverðinum að halda í sér hlátrinum en varð þess í stað eitt stórt bros og sveigði í suður, nösum sínum til björgunar.
Þjónustustjórinn var kominn fram á gang og staldraði þar við, leit um öxl til að fullvissa sig um að enginn hefði orðið var við gjörðir hans en svo sá hann öryggisvörðnn.
-Hvað? Sagði hann og það mátti gæta ergelsis í rámri rödd hans en öryggisvörðurinn gat ekki svarað honum, hann vissi hvað hann gat sagt en það gerðist ekkert, sennilega áhrif frá prumpinu. Öryggisvörðurinn stóð því bara þarna fyrir framan hann, skælbrosandi með hendur í vösum. Þjónustustjórinn hristi höfuðið og hélt því för sinni áfram, enn gramari en áður. Eina athyglin sem hann fékk frá fólki var þetta leiðinda bros öryggisvarðarins á milli eyrnanna.
Þjónustustjóri Securitas á Austurlandi réri því á önnur mið og fann hina fullkomnu huggun í tebolla.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Faðmlag frá Austur Íslandi

Þá er hann farinn hann litli bróðir minn. Farinn til mömmu sinnar og pabba. Hann fann sig útbrunnan í öryggisvörslunni við álverið á Reyðafirði. Hann er öryggisvörðurinn sem verið hefur hér lengst. Mörg ár, ég veit ekki hve mörg, sennilega þrjú ár eða fjögur og búinn að upplifa margt, bæði skrýtið og það sem búast má við í slíku starfi. Einu sinni varð hann vitni að útlendingaklámi í bláum Eimskipsgámi. Þetta var ein af fyrstu sögunum sem ég heyrði er ég flutti hingað.
Ég er þegar farinn að sakna hans. Það eru aðeins þrír dagar síðan hann læddist inn í herbergið mitt, kveikti ljósið og bauð mér góða daginn. Við áttum þarna síðustu stundirnar okkar á Austur Íslandi í stofunni heima, töluðum um framtíðina og það sem áður hafði gerst hér austan megin.
Sindri hafði komið bílnum sínum á fjögur dekk og það mátti sjá léttinn á honum eða var honum kannske létt á því að komast í burtu héðan. Ég held og ég trúi því að Sindri eigi eftir að sakna austursins.
Eftir nægilega langa stund, var komið að kveðjustund. Við bræðurnir féllumst í faðma. Skrýtið hve fljótlega maður dettur úr æfingu við að faðma. Faðmlagið var frekar hart, eins og það væri veggur á milli okkar en við vorum sennilega farnir að sakna hvors annars þegar við héldum utan um hvorn annan. Hví þarftu að fara svona fljótt hugsaði ég á meðan hann ígrundaði hvort hann væri að gera rétt. Hvaða erindi á hann í bæinn? Er malbikið eitthvað svartara þar en hér? Hann verður bara að læra af þessu strákurinn og svo kemur hann ef til vill aftur seinna.
Á unga aldri var faðmlag ekkert mál, þá var ég líka barn. Enn man ég eftir skeggbroddum föður míns og svo átti hann líka Old Spice. Bróðir föður míns hann Bergur, hann faðmar mig líka alltaf þegar við hittumst og það er langt síðan við hittumst og svo á ég vin sem heitir líka Bergur og við föðmumst alltaf vel og hann hitti ég allt of sjaldan þannig æfingin er ekki stunduð nógu oft. Ég faðma fjölskylduna mína en við erum svo sem ekkert mikið fyrir faðmlög en Fúsi fær stundum faðmlag og Róbert fær faðmlag á hverjum degi.
Sindri gegnir nú störfum vaktmanns á stjórnstöð Securitas í Reykjavík. Hann ákvað að taka þessari stöðu sem þykir einkar þægileg þar sem hann situr við síma og tölvu alla liðlanga vaktina en það er auðvitað holt að breyta um umhverfi. Nýtt fólk og nýjir brandarar.
Til hamingju með nýja starfið Sindri og vegni þér vel.